Ef þig vantar rök fyrir því að borða góða nautasteik eða aðra steik í kvöld þá er þetta eitthvað fyrir þig. Niðurstöður nýrrar breskrar rannsóknar sýna nefnilega að prótínríkur matur er næstum því jafn hollur fyrir hjartað eins og að hætta að reykja.
Á heimasíðu enska háskólans University of East Anglia kemur fram að samkvæmt niðurstöðum rannsóknar vísindamanna við skólann þá sé næstum jafn gott fyrir hjartað að borða prótínríkan mat eins og að hætta að reykja eða að hreyfa sig meira.
Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að þeir sem fá réttu amínósýrurnar úr kjöti og plöntum eru með lægri blóðþrýsting og ekki eins stífar æðar. Áhrif þessa svara til þess að bætt sé upp fyrir of mikla saltneyslu, áfengisneyslu og reykingar.
Vísindamennirnir rannsökuðu áhrif sjö amínósýrutegunda á hjarta- og æðakerfið hjá 2.000 tvíburapörum, allt konum, sem voru með góðan BMI-stuðul. Vísindamennirnir rannsökuðu mataræði kvennanna og báru það saman við blóðþrýstingsmælingar og þykkt æða.
Amínósýrur í rannsókn
Í rannsókninni komu fram sterkar sannanir fyrir að þeir sem borðuðu mesta magnið af amínósýrum voru með betri blóðþrýsting og minni stífleika í slagæðum.
„Aukin neysla á prótínríku fæði eins og kjöti, fiski, mjólkurvörum, baunum, spergilkáli og spínati getur verið mikilvæg og auðveld leið til að draga úr líkum á að fá hjartasjúkdóma.“
Segir Dr. Amy Jennings, sem vann að rannsókninni.
Amínósýrur úr kjöti draga úr stífleika í slagæðum en amínósýrur úr plöntum lækka blóðþrýstingin. Jennings segir að það hafi komið mjög á óvart að neysla á amínósýrum hafi álíka mikil áhrif á blóðþrýstinginn og viðurkenndar lífstílsbreytingar eins og að minnka áfengisneyslu, minnka saltneyslu og auka hreyfingu. Hún segir að besti daglegi skammturinn sé 75 grömm af steik, 100 grömm af laxi eða hálfur líter af léttmjólk.
Heimild: mbl.is